Baráttan milli Guðs og hins illa

HORFÐU Á FYRIRLESTURINN

SKILABOÐ TIL ÞÍN

HLUSTAÐU Á FYRIRLESTURINN

LESEFNI

Con Dios, bls. 82-87, kaflinn heitir Baráttan á milli Guðs og hins illa.

Við hvetjum ykkur til að vera dugleg að lesa í bókinni fyrir hvern tíma.

Lesblindir og sjónskertir eiga rétt á að nálgast Con Dios á hljóðbók á Blindrabókasafninu.

BIBLÍAN OKKAR

Í þessari sögu úr Lúkasarguðspjalli fylgjumst við með lífi Jósef og Maríu um það leiti þegar Jesú fæðist en þau þurftu að þola mikið mótlæti.

FÆÐINGARSAGAN

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins sögðu hirðarnir sín á milli: „Förum beint til Betlehem að sjá það sem gerst hefur og Drottinn hefur kunngjört okkur.“ Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið sem lá í jötu. Þegar þeir sáu það skýrðu þeir frá því er þeim hafði verið sagt um barn þetta. Og allir sem heyrðu undruðust það er hirðarnir sögðu þeim. En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

ÍGRUNDUN

  1. Hvað er illska?
  2. Hvernig styðjum við það góða?
  3. Hvers vegna koma stundum slæmir hlutir fyrir gott fólk?

VERKEFNI

Núna skulum við draga okkur miða með persónu úr Biblíunni og hafa hana við höndina. Við ætlum svo að taka soðið egg og búa til þessa persónu úr egginu og segja hinum í hópnum frá henni.

Það sem við skulum velta fyrir okkur er hvort að persónan sé ill eða góð? Hvort hún komi oft fyrir í Biblíunni? Hvað er hún að gera o.s.frv.

BÆN KAFLANS

Drottinn, ég bið þig um að vaka yfir mér og hjálpa mér til að takast á við þau verkefni sem þú gefur. Viltu gefa að ég megi vera á hlið þess góða og jákvæða í lífinu. Amen.