Kærastar og kærustur

HORFÐU Á FYRIRLESTURINN

SKILABOÐ TIL ÞÍN

HLUSTAÐU Á FYRIRLESTURINN

LESEFNI

Con Dios, bls. 88-93

Við hvetjum ykkur til að vera dugleg að lesa í bókinni fyrir hvern tíma.

Lesblindir og sjónskertir eiga rétt á að nálgast Con Dios á hljóðbók á Blindrabókasafninu.

BIBLÍAN OKKAR

Sagan okkar í þessum kafla er sagan af fyrsta kærustupari Biblíunnar, þeim Adam og Evu. Söguna má finna í 1. Mósebók í Gamla testamentinu.

ADAM OG EVA

Þau voru bæði nakin, karlinn og kona hans, en blygðuðust sín ekki.

Höggormurinn var slóttugri en öll dýr merkurinnar sem Drottinn Guð hafði gert. Hann sagði við konuna: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“
Konan svaraði höggorminum: „Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum en um ávöxt trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, sagði Guð: Af honum megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.“ Þá sagði höggormurinn við konuna: „Sannið til, þið munuð ekki deyja. En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“

Þá sá konan að tréð var gott af að eta, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks. Hún tók af ávexti þess og át og gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. Þá lukust upp augu þeirra beggja og þeim varð ljóst að þau voru nakin. Þau saumuðu því saman fíkjuviðarblöð og gerðu sér mittisskýlur.

Þá heyrðu þau til Drottins Guðs sem gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum og maðurinn og kona hans földu sig fyrir augliti Drottins milli trjánna í aldingarðinum. Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: „Hvar ertu?“ Og hann svaraði: „Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur því að ég er nakinn, og ég faldi mig.“ Hann sagði: „Hver sagði þér að þú værir nakinn? Hefur þú etið af trénu sem ég bannaði þér að eta af?“Maðurinn mælti: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ Þá sagði Drottinn Guð við konuna: „Hvað hefurðu gert?“ Konan svaraði: „Höggormurinn tældi mig og ég át.“

Adam nefndi konu sína Evu því að hún varð móðir allra sem lifa.Og Drottinn Guð gerði skinnkyrtla handa Adam og konu hans og lét þau klæðast þeim. 

Og Drottinn Guð sagði: „Nú er maðurinn orðinn sem einn af oss fyrst hann ber skyn á gott og illt. Bara að hann rétti nú ekki út hönd sína, taki einnig af lífsins tré og eti og lifi eilíflega.“

Og Drottinn Guð lét manninn fara úr aldingarðinum Eden til þess að yrkja jörðina sem hann var tekinn af. Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Eden og loga hins sveipanda sverðs til þess að gæta vegarins að lífsins tré.

ÍGRUNDUN

  1. Hversu gott par eru þau Adam og Eva?
  2. Hvað gerir Guð í sögunni?
  3. Hvað heldur þú að verði um þau?

VERKEFNI

Jæja þá er komið að því að reyna á leikræna hæfileika okkar og leikstjórn!

Við ætlum að færa söguna um kærustuparið, Maríu og Jósef, í nútímalegt horf og setja upp leikrit. Þess vegna verður þú að lesa söguna vel fyrir næsta tíma og mæta tilbúin/nn með góða skapið og sköpunargáfuna í botni. Hlökkum til að hitta þig í næsta tíma:)

BÆN KAFLANS

Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.
(Hallgrímur Pétursson)