Um dauðann og sorgina

HORFÐU Á FYRIRLESTURINN

SKILABOÐ TIL ÞÍN

HLUSTAÐU Á FYRIRLESTURINN

LESEFNI

Con Dios, bls. 50-55

Við hvetjum ykkur til að vera dugleg að lesa í bókinni fyrir hvern tíma.

Lesblindir og sjónskertir eiga rétt á að nálgast Con Dios á hljóðbók á Blindrabókasafninu.

BIBLÍAN OKKAR

Sagan okkar að þessu sinni er úr Markúsarguðspjalli en hún fjallar um upprisu Jesú sem gerðist eftir að hann var krossfestur.

HANN ER UPPRISINN

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann.  Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni.

Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór.

Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.  En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“

Þær fóru út og flýðu frá gröfinni því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu því þær voru hræddar. 

ÍGRUNDUN

  1. Vissir þú að það er mjög eðlilegt að vera hræddur við dauðann?
  2. Að við trúum á upprisu hverrar kristinnar manneskju og eilífa tilvist?
  3. Að Guð yfirgefur okkur aldrei, sama hvað gerist?

VERKEFNI

Yndislegu fermingarbörn! Nú er komið að því að mamma og pabbi eða einhver sem ykkur þykir vænt um fylgi ykkur í fermingarfræðsluna og taki þátt með ykkur. Prestarnir okkar ætla að ræða við ykkur saman um dauðann og sorgina, áföll og líðan. Það er eðlilegt að við verðum öll fyrir einhverjum áföllum í lífinu og það skiptir miklu máli hvernig við vinnum úr þeim og tilfinningunum okkar því það gerir okkur kleift að halda lífinu áfram.

BÆN KAFLANS

Góði Guð, stundum er lífið svo erfitt og margt að takast á við. Viltu vera með mér þar og halda fast um hönd mína. Viltu gefa að ljós og von megi koma til mín og minna á slíkum stundum og að návist þín gefi okkur styrk og stuðning. Amen.